Ég er 51 árs ég kláraði einkaþjálfaranámið fyrir 14 árum, vann sem einkaþjálfari í World Class. Ég menntaði mig líka sem bókari, en þetta er skemmtilegra 😊 Ég hef sjálf upplifað áskoranir á minni vegferð og skil hvað það getur verið erfitt að halda sér á réttri braut – en ég veit líka að það er hægt!
Þegar ég var ólétt af syni mínum fyrir 27 árum þá blómstraði ég bókstaflega 😊 ég byrjaði meðgönguna í gifsi eftir aðgerð á liðböndum eftir körfubolta.
Ég var svo hamingjusöm nýbökuð mamma, og tók í alvörunni ekki eftir því hvað ég var orðin mikið krútt og hvað það voru komin mörg kíló á mig.
Ég var svo heppin að eiga yndislega ömmu og afa, og svo einn daginn þá knúsar afi mig og segir „jæja elsku stelpan mín er þetta ekki komið gott“ 😊 og þá fór ég að vakna og gera mér grein fyrir því hvað ég var búin að bæta á mig miklu.
Ég viðurkenni að ég fékk alveg smá sjokk, en þá tók við að byrja að breyta til. Ég á yndislega vinkonu sem var dugleg að æfa, og ég var alltaf að segja við hana að núna ætlaði ég að fara að mæta, og svo þegar spinning tíminn kom þá komu alltaf afsakanir hjá mér að ég gæti ekki komið.
Hún hlustaði á mig í nokkur skipti, en svo einn daginn 15 mín áður en spinning átti að byrja þá hringir hún og segir bara „ ég er að koma og sækja þig eftir 5 mín og við erum á leiðinni í tíma“
Ég man ennþá þessa tilfinningu, ég varð hrædd og langað að læsa húsinu 😊 en hún kom og við fórum á þessa æfingu. Ég tók svo utan um hana þegar tíminn var búin og eftir þetta mættum við á allar æfingar. En þegar þetta ferli hjá mér byrjaði og ég fór að missa kíló, þá man ég eftir einu skipti þegar ég kom heim eftir vinnu þá var blómvöndur í hraðsuðukatlinum mínum 😊 þá hafði hún komið heim á meðan ég var að vinna og fann ekki blómavasa, en vildi gleðja mig út af árangrinum sem ég hafði náð.
Hún gerði marga svona litla hluti á meðan ég var að byrja, þetta var svo ómetanlegt og fallegt af henni og ég er henni endalaust þakklát 26 árum seinna 😊
En með breytingum í mataræði, hreyfingu og þessum stuðningi þá tókst mér að ná mínu besta formi aftur. Þessi reynsla veitti mér innblástur til að hjálpa öðrum eins og vinkona mín hjálpaði mér.
Ég þekki það því persónulega hvað það skiptir miklu máli að hafa stuðning, og það þarf meira en að mæta á æfingu og borða prótein stykki.
Ég veit líka að lífið er ekki alltaf auðvelt og getur slegið okkur út af sporinu. Sjálf hef ég lent í meiðslum og áskorunum, ég sleit liðbönd í hné og ökkla í körfubolta þegar ég var yngri, lenti í bílslysi fyrir 10 árum og fékk högg á háls ,bak og öxl .
Svo fyrir 2 árum datt ég og náði mér í brjósklos 😊 Ég hef verið áskrifandi í sjúkraþjálfun með allan þennan klaufaskap og hef alltaf ákveðið að taka þetta á jákvæðan hátt. Og hugsa frekar hvað ég get lært betur á líkamann í öllum þessum tímum hjá sjúkraþjálfurum sem ég hef mætt í. Hvernig ég þarf þá að breyta einhverjum æfingum út frá hvaða áverka ég er að díla við 😊
Já svo þetta yndislega breytingarskeið… þá er það líka lærdómur og manni finnst stundum eins og maður sé að kynnast líkamanum sínum aftur. Það er margt sem breytist hjá okkur konunum með líkamann og mataræðið. Einnig hvað það er mikilvægt að passa upp á vöðvastyrkinn, jafnvægi og fleira sem hjálpar okkur að verða virkari á efri árum.
Ég elska að vinna þar sem ég get gefið af mér og hjálpað fólki. Og ég þekki þetta ferli allt saman af eigin reynslu, hæðir og lægðir því þær koma hjá öllum. Og ég veit að árangur kemur með stuðningi, smá skrefum og jákvæðni.
Það sem þú færð hjá mér er ekki bara þjálfun heldur stuðningur, pepp og hrós í þessu ferli. Ég trúi því og veit það sjálf að öll litlu skrefin sem maður tekur, verða að því markmiði sem þú ætlar að ná .
Við eigum að trúa á okkur, en líka að sýna okkur mild í lífinu.
Ósk